Bíó og sjónvarp

Golden Globe-verðlaunin afhent í kvöld

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Það eru myndirnar 12 Years a Slave og American Hustle sem eru með flestar tilnefningar.
Það eru myndirnar 12 Years a Slave og American Hustle sem eru með flestar tilnefningar.
Golden Globe-verðlaunin verða afhent í Kaliforníu í kvöld, en verðlaunin eru oft sögð gefa vísbendingu um hverjir verða sigursælir á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Það er kvikmynd Steve McQueen, 12 Years a Slave, sem hlaut flestar tilnefningar í ár, ásamt myndinni American Hustle eftir leikstjórann David O. Russell. Myndirnar eru tilnefndar í sjö flokkum og eru leikstjórar beggja mynda tilnefndir, sem og handritshöfundar. 12 Years a Slave er tilnefnd sem besta dramatíska kvikmynd á meðan American Hustle er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja.

Kvikmynd Alexanders Payne, Nebraska, fylgir á hæla þeirra með fimm tilnefningar. Myndirnar Captain Phillips og Gravity eru svo með fjórar tilnefningar hvor.

Sérstaklega ríkir spenna í flokki bestu aðalleikkvenna en þar þykja þær Cate Blanchett og Sandra Bullock sigurstranglegar. Blanchett er tilnefnd fyrir leik sinn í kvikmynd Woody Allen, Blue Jasmine, en Bullock fyrir frammistöðu sína í geimmyndinni Gravity.

Þá er danska kvikmyndin Jagten, eftir leikstjórann Thomas Vinterberg, tilnefnd í flokki bestu mynda á tungumálum öðrum en ensku, en myndin naut mikilla vinsælda hér á landi í fyrra. Keppir hún við myndina Blue Is the Warmest Color frá Frakklandi, The Great Beauty frá Ítalíu, The Past frá Íran og The Wind Rises frá Japan.

Golden Globe-verðlaunin verða í beinni útsendingu Stöðvar þrjú og hefst útsendingin klukkan eitt eftir miðnætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×