Enski boltinn

Solskjær: Alltaf dreymt um að starfa í ensku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
Ole Gunnar Solskjær segir að draumur hafi ræst þegar hann samþykkti að gerast knattspyrnustjóri velska liðsins Cardiff sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er frábær áskorun fyrir mig. Cardiff er reiðubúið að taka næsta skref og ég vona að mér takist að hjálpa liðinu til þess,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag.

„Mig hefur ávallt dreymt um að gerast knattspyrnustjóri liðs í ensku úrvalsdeildinni og ég er hæstánægður með að fá nú tækifæri til þess.“

„Ég er mjög jákvæður knattspyrnustjóri. Ég vil spila góðan fótbolta og í gær sýndum við hvað við færir um að gera inn á vellinum,“ bætti Solskjær við en Cardiff tapaði þá fyrir Arsenal, 2-0, en bæði mörk leiksins voru skoruð á lokamínútunum. „Það eru erfiðir leikir fram undan og við hlökkum til að takast á við næstu verkefni.“

Þess má geta að Cardiff mætir Manchester United, gamla félagi Solskjær, á Old Trafford þann 28. janúar næstkomandi.

Mehmet Dalman, stjórnarformaður Cardiff City, segir að Solskjær hafi verið efstur á óskalistanum eftir að Malky Mackay var rekinn í síðustu viku.

„Það var bara eitt nafn í mínum huga frá fyrsta degi. Við erum ánægðir með að geta boðið Ole velkominn til félagsins,“ sagði Dalman.

Aron Einar Gunnarsson leikur með Cardiff og kom inn á sem varamaður í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×