Fótbolti

Blatter vill meiri refsingu fyrir leikaraskap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, vill að leikmenn sem gera sér upp meiðsli verði refsað með því að hleypa þeim ekki aftur inn í leikinn við fyrsta tækifæri.

„Mér þykir það óhemju pirrandi að sjá hálfdauða leikmenn vakna aftur til lífsins um leið og þeir fara út af vellinum,“ skrifaði Blatter í vikulegum dálki sínum á heimasíðu FIFA.

„Dómarinn getur látið leikmanninn bíða á hliðarlínunni þar til að fjarvera hans hefur áhrif á leikinn. Þetta væri tímarefsing og gæti orðið til þess að leikmenn hugsi sig um áður en þeir grípa til úrræða eins og leikaraskaps,“ skrifaði Blatter enn fremur.

„Hliðarlínan virðist hafa ótrúlegan lækningamátt sem sérfræðingar á sviði lækninga geta einfaldlega ekki útskýrt.“

Blatter segir að helstu tafir knattspyrnuleikja í dag megi skrifa á leikaraskap og hann vill grípa til nýrra leiða til að útrýma þessari hegðun. „Aðrar íþróttir hafa tekið hart á þessu máli en svo virðist sem að leikaraskapur sé orðinn eðlilegur hluti af nútímaknattspyrnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×