Innlent

Óskandi að geta haldið áfram reynslunni ríkari

Samúel Karl Ólason skrifar
Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands.
Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands. Vísir/GVA
Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands, segir að stuðningur við fórnarlömb netníðs hafi ekki komist nægilega til skila í viðtölum hennar við fjölmiðla undanfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún skrifaði á Fésbókarsíðu Fémínistafélags Íslands í dag.

Vill hún árétta að ofbeldi eða hótanir þar um séu aldrei réttlætanlegar. Vísar hún til ummæla sem Hildur Lilliendahl hefur orðið uppvís að. Þá segist hún og Femínistafélagið taka afstöðu með þolendum ofbeldis og hvetur þá til að skila skömminni þangað sem hún eigi heima.

Hér að neðan má lesa yfirlýsingu Steinunnar í heild sinni:

Undirrituð talskona Femínistafélags Íslands vill í ljósi umræðu undanfarinna daga árétta að ofbeldi eða hótanir þar um eru aldrei réttlætanlegar. Þau ummæli sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir hefur orðið uppvís að eru ljót og meiðandi. Hún hefur sjálf axlað ábyrgð á þeim og er það vel. Nú bíður hennar að reyna á ný að byggja upp traust kjósi hún að halda femínískri baráttu sinni áfram.

Eins og kom fram í máli mínu í fjölmiðlum þá er netníð alltaf netníð sama hver á í hlut. Af orðum mínum í viðtali við Ísland í dag sl. föstudag gæti mátt skilja að mál Hildar væri frábrugðið öðrum málum af sama toga. Ég vil árétta að það er að sjálfsögðu ekki rétt og miður að það hafi verið niðurstaða fréttaflutningsins.

Í viðtalinu tók ég þá ákvörðun að staldra við og stíga varlega til jarðar, vera ekki peð í einhverju tafli, reyna að taka þetta málefnalega og yfirvegað, reyna að særa sem fæsta og sætta sem flesta. Það var ekki í boði, heldur var ég þráspurð og mér lögð orð í munn. Við því spyrnti ég fótum og afleiðingin var sú að stuðningur við þolendur komst ekki nógu vel til skila. Ég harma það og styð þolendur ákaflega, því netníð er sársaukafullur og alvarlegur hlutur, alltaf, sama hver á í hlut.

Ég, líkt og Femínistafélag Íslands, tek afstöðu með þolendum ofbeldis og hvet þá til að skila skömminni þangað sem hún á heima.

Nú er það verkefni mitt, eins og annarra sem standa nærri þeim sem gerast sekir um ofbeldi, að læra af reynslunni. Það er óskandi að við getum haldið áfram héðan í frá, reynslunni ríkari, og haldið áfram baráttu fyrir kvenfrelsi og möguleikum allra á lífi án ofbeldis.

Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands


Tengdar fréttir

Femínismi er meira en Hildur Lilliendahl

„Þetta sýnir það einmitt að það sem þú setur á internetið það er á internetinu og það fer ekkert. Það er eins gott að passa sig“, segir Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×