Enski boltinn

Máttu ekki fagna titlinum strax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Wigan, með bikarinn.
Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Wigan, með bikarinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Davíð vann svo sannarlega Golíat í úrslitaleik enska bikarsins um helgina þegar Wigan fagnaði sínum fyrsta titli í 81 árs sögu félagsins með því að vinna 1-0 sigur á stórstjörnuliði Manchester City á Wembley-leikvanginum. Titlalaust tímabil hjá City gæti jafnframt þýtt endalok Ítalans Robertos Mancini sem stjóra félagsins.

Það var varamaðurinn Ben Watson sem skoraði sigurmarkið með skalla í uppbótartíma eftir hornspyrnu Shauns Maloney. Þetta var eina skot Wigan á markið í leiknum og margir líktu markinu við sigurmark Lawrie Sanchez fyrir Wimbledon á móti Liverpool í bikarúrslitaleiknum 1988. Í það minnsta eru þetta tveir af óvæntustu bikarsigrum í sögu þessarar fornfrægu keppni.

Þetta var því mjög stór stund og draumur að rætast fyrir Dave Whelan, stjórnarformann Wigan, sem á mikið í uppgangi félagsins.

„Við eigum enn eftir óklárað verkefni því það er leikur á þriðjudaginn og leikur á sunnudaginn,“ sagði Dave Whelan en Wigan situr í fallsæti og berst fyrir lífi sínu í deildinni. Bikarmeistarar hafa aldrei fallið úr deildinni.

„Strákarnir gera sér vel grein fyrir því að þeir fara allir strax heim og það verða engin fagnaðarlæti í kvöld. Það verður æfing strax á morgun (í gær) því það eru tveir risaleikir fram undan. Það eru allir á sömu blaðsíðu og við ætlum ekki að fagna fyrr á sunnudaginn kemur,“ sagði Whelan og liðið var sett í áfengisbann.

„Það verður ekkert kampavín og þeir fá ekki að drekka neitt. Roberto er Roberto og við ætlum að fagna þegar við höfum haldið sæti okkar í ensku úrvalsdeildinni á sunnudagskvöldið,“ sagði Whelan við Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×