Enski boltinn

Ég var bara að grínast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, segir að ummæli sín um lokaleik liðsins á tímabilinu hafi bara verið tilraun hans til að vera fyndinn.

Newcastle tryggði veru sína í ensku úrvalsdeildinni með 2-1 sigri á QPR um helgina. Liðið mætir Arsenal í lokaleik sínum um næstu helgi og sagði Pardew að honum væri alveg sama þótt sitt lið myndi tapa 4-0.

„Ég veit að fólk hefur tjáð sig um þessi ummæli mín um leikinn gegn Arsenal. Þetta var auðvitað grín hjá mér,“ sagði hann en leikurinn skiptir Arsenal miklu máli í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

„Það er auðvitað ekki tilfellið. Ég vil bara að leikmenn mínir njóti þess að spila leikinn án þess að hafa of miklar áhyggjur. Við munum leggja okkur jafn mikið fram og í öðrum leikjum. Staða okkar í deildinni breytir engu.“

„Ég vil enda tímabilið á jákvæðan máta og gefa leikmönnum ástæðu til að brosa á lokadegi tímabilsins, sem hefur verið erfitt fyrir okkur öll.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×