Enski boltinn

Zaha kom Crystal Palace á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Zaha.
Wilfried Zaha. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wilfried Zaha, verðandi leikmaður Manchester United, skoraði bæði mörk Crystal Palace í kvöld þegar liðið hans Ian Holloway vann 2-0 útisigur á Brighton í seinni leik liðanna í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Manchester United keypti Wilfried Zaha í janúarglugganum og hann sýndi af hverju með því að skora tvö mörk í þessum mikilvæga leik í kvöld. Með þessu sá hann til þess að síðasti leikur hans í búningi Crystal Palace verður á Wembley 27. maí næstkomandi.

Liðin gerðu markalaust jafntefli á heimavelli Crystal Palace í fyrri leiknum en Palace-menn unnu 2-0 sigur á heimavelli Brighton & Hove Albion í kvöld og mæta því Watford á Wembley í hreinum úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Wilfried Zaha skoraði fyrra mark sitt með skalla á 69. mínútu eftir fyrirgjöf Yannick Bolasie en seinna markið skoraði hann síðan með frábæru skoti á 88. mínútu.

Ian Holloway kom á sínum tíma Blacpool upp í ensku úrvalsdeildina í gegnum umspilið og gæti nú endurtekið leikinn með Crystal Palace.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×