Enski boltinn

Mancini rekinn frá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini
Roberto Mancini Mynd/AFP
Ensku fjölmiðlarnir BBC og Sky Sports greina frá því í kvöld að Manchester City hafi rekið knattspyrnustjórann Roberto Mancini í kjölfar þess að félagið tapaði á móti Wigan um helgina í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar.

Manchester City náði ekki að vinna titil á þessu tímabili og komst ekki upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni. Liðið missti meistaratitilinn yfir til nágranna sinna í Manchester United en endaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Roberto Mancini hefur verið stjóri Manchester City frá 2009 en undir hans stjórn varð liðið enskur meistari 2012 og enskur bikarmeistari 2011. Þetta voru fyrstu titlar félagsins frá árinu 1966.

Manchester City vann 82 af 133 leikjum í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Roberto Mancini en gerði áður frábæra hluti með ítalska félagið Internazionale frá 2004 til 2008.

Bæði Manchester-liðin verða því með nýjan knattspyrnustjóra á næstu leiktíð því Sir Alex Ferguson er eins og kunnugt er að hætta með lið Manchester United.

Manuel Pellegrini, þjálfari spænska liðsins Malaga, hefur verið sterklega orðaður við starfið og enskir miðlar segja að hann sé langlíklegastur til að verða eftirmaður Roberto Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×