Innlent

Verður ekki leitað á þingmönnum og starfsmönnum

Brjánn Jónasson skrifar
Öryggisgæsla á Alþingi var hert í kjölfar atviks þar sem maður skaðaði sig með málmáhaldi fyrir um ári síðan.
Öryggisgæsla á Alþingi var hert í kjölfar atviks þar sem maður skaðaði sig með málmáhaldi fyrir um ári síðan. Fréttablaðið/gva
Alþingi hefur hert öryggisgæslu í byggingum þingsins, og mun á næstunni festa kaup á málmleitartæki til að tryggja að gestir komist ekki inn á þingpalla með málmhluti án þess að gera grein fyrir þeim, segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Þessi þróun á sér nokkurn aðdraganda, en skömmu fyrir jól í fyrra vann maður sér tjón á salerni þingsins með beittu áhaldi sem hann kom með inn í húsið.

„Eftir þetta atvik brugðumst við við með ýmsum hætti,“ segir Helgi. „Það er meiri öryggisgæsla hér en áður.

Hann segir að á nýju ári verði hugað að því að kaupa málmleitartæki sem allir gestir þurfi að ganga í gegnum. Hann segir þó að ekki standi til að þingmenn og starfsmenn þingsins þurfi að fara í gegnum hliðið. Það væri erfitt í framkvæmd þar sem starfsemi Alþingis sé í mörgum byggingum og bæði starfsmenn og þingmenn komi og fari oft á dag.

Helgi segir ekki komið í ljós hver kostnaður þingsins verði við að koma sér upp málmleitarhliði. Kostnaðurinn verði þó varla meiri en ein til tvær milljónir króna, og rúmist vel innan fjárheimilda þingsins.

„Við munum gera svipaðar ráðstafanir og gerðar eru í öðrum þjóðþingum allsstaðar í kringum okkur, þannig að menn fari ekki hér inn með málmhluti án þess að hægt sé að skoða það,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×