Breski leikarinn Nigel Davenport er látinn, 85 ára að aldri. Davenport var hvað þekktastur fyrir hlutverk sín í Óskarsverðlaunamyndinni Chariots Of Fire og Man for all Seasons. Hann er faðir leikarans Jacks Davenport.
Nigel Davenport stundaði nám við Oxford áður en hann gerðist sviðsleikari. Í upphafi kvikmyndaferils síns tók hann helst að sér minni hlutverk í kvikmyndum á borð við Peeping Tom og Look Back in Anger.
Hann lék einnig á móti Vanessu Redgrave í stórmyndinni Mary, Queen of Scots sem kom út árið 1971 og fór með hlutverk Abrahams Van Helsing í hrollvekjunni Bram Stoker‘s Dracula sem frumsýnd var árið 1973.
Davenport fæddist í Englandi árið 1928 og stundaði enskunám við Sidney Sussex háskólann. Hann komst á samning hjá Royal Court leikhúsinu árið 1960 og hóf kvikmynda- og sjónvarpsferil sinn skömmu síðar. Davenport lætur eftir sig þrjú börn: Lauru, Hugo og leikarann Jack.

