Fótbolti

Ætlar að gera allt til þess að sýna Lars fram á mistök hans

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
„Ég er náttúrulega mjög ósáttur og brjálaður yfir því. En að sjálfsögðu virði ég ákvörðun þjálfarans. Ég verð að taka því eins og fagmaður,“ segir Alfreð Finnbogason um að hafa ekki verið í byrjunarliði íslenska liðsins gegn Kýpur á dögunum. Lars Lagerbäck skipti Alfreð inn á um miðjan síðari hálfleik.

„Honum fannst kannski betra að nota þá taktík í síðasta leik og ég mun halda áfram að gera allt sem í mínu valdi stendur til að sýna að hann er að gera mistök með því að hafa mig á bekknum.“

Alfreð er sem stendur markahæsti leikmaður í efstu deild hollensku knattspyrnunnar. Þó er ekki langt síðan að það hefði líklega verið draumur að koma inn á fyrir Eið Smára Guðjohsen.

„Já, þetta er fljótt að breytast,“ segir Alfreð og hlær. „Maður getur ekki farið að skapa einhverja óreiðu útaf því. Hann er náttúrulega besti leikmaður sem við höfum átt í sögunni. Hann er ennþá með gott „touch“ og ennþá með þetta. Þetta er bara lúxusvandamál.“

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×