Fótbolti

Ég er orðinn betri knattspyrnumaður

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson var á dögunum valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Kýpur og Norðmönnum í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu á næsta ári.

„Ég var eðlilega mjög ánægður með það að vera valinn og það var góð tilfinning þegar símtalið kom,“ segir Guðlaugur Victor Pálsson.

Leikmaðurinn tekur nú þátt í sínu fyrsta A-landsliðsverkefni á ferlinum en Guðlaugur lék töluvert fyrir yngri landslið Íslands. Guðlaugur leikur með hollenska úrvalsdeildarliðinu N.E.C. Nijmegen og hefur staðið sig með prýði undanfarið ár. Árið 2007 gekk leikmaðurinn í raðir danska félagsins AGF frá Fylki og samdi því næst við enska liðið Liverpool árið 2009.

Þar lék hann með varaliði félagsins í töluverðan tíma en árið 2010 fór leikmaðurinn á lán til Dagenham & Redbridge.

Næst var förinni haldið til Skotlands þegar leikmaðurinn samdi við Hibernian árið 2011 og ári síðar var miðjumaðurinn mættur til Bandaríkjanna til að spila með New York Red Bulls.

Spilatími Guðlaugs með þeim liðum sem hann hefur verið í hefur oftar en ekki verið af skornum skammti en tækifærið kom árið 2012 þegar hann var lánaður frá Red Bulls til N.E.C. Nijmegen. Hann samdi formlega við félagið í vor og hefur verið fastamaður í byrjunarliðinu.

Er að spila reglulega

„Munurinn á mér í dag og síðustu árin er að ég er að spila reglulega. Það er alltaf það mikilvægasta fyrir atvinnumann. Ég hef verið á miklu flakki síðastliðin ár og hef hvergi náð að festa mig almennilega í sessi. Í dag er ég að spila alla leiki og hef því náð að bæta mig og er orðinn betri knattspyrnumaður.“

Guðlaugur hefur síðustu ár aðeins verið í eitt ár á hverjum stað en leikmaðurinn sér mikla framtíð fyrir sér í Hollandi og getur vel ímyndað sér að leika í nokkur ár til viðbótar hjá N.E.C.

Ísland mætir Kýpur í undankeppni HM á föstudagskvöldið en leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum. Ísland tapaði 1-0 fyrir Kýpur í öðrum leik riðilsins ytra þann 11. september á síðasta ári.

„Eins og liðið var að spila í síðustu tveimur leikjum og ef við gerum það sem fyrir okkur er lagt er ég ekki í nokkrum vafa um að við náum í þrjú stig á föstudagskvöld.“

Fáránleg umræða um Portúgal

Faðir Guðlaugs Victors er frá Portúgal og hefur leikmaðurinn því tvöfaldan ríkisborgararétt. Aron Jóhannsson valdi á dögunum að leika fyrir bandaríska landsliðið og tæknilega séð hefði Guðlaugur einnig haft kost á að leika fyrir portúgalska landsliðið. Guðlaugur hefur nú verið valinn í A-landslið Íslands og sá möguleiki er því úr sögunni.

„Mér fannst það í raun fáránlegt að það hefði komið upp í umræðuna,“ segir Guðlaugur og hlær.

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×