Erlent

Rússar ætla að afhenda flaugar

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Rússneskt eldflaugavarnarkerfi af gerðinni S-300.
Rússneskt eldflaugavarnarkerfi af gerðinni S-300. Mynd/AP

Rússar segjast ætla að afhenda sýrlenskum stjórnvöldum vopn til þess að aftra því að önnur ríki blandi sér í stríðið í Sýrlandi.

Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að háþróaðar sprengjuflaugar sem ríkið mun senda til Sýrlands muni stuðla að stöðugleika og geti komið í veg fyrir að aðrir skerist í leikinn.

Rússar gagnrýndu einnig þá ákvörðun Evrópusambandsins að hafa ekki endurnýjað vopnasölubann til uppreisnarmanna í landinu. Rússar telja að þessi ákvörðun ESB muni minnka möguleika á því að hægt verði að ná samkomulagi á friðarráðstefnu í Genf sem stendur til að halda í júní. Ryabkov segir að samningur milli Rússlands og Sýrlands um sölu á sprengjuflaugunum hafi verið undirritaður fyrir mörgum árum síðan.

Leiðtogi frjálsa sýrlenska hersins hótaði í gær að gera árásir á Hezbollah-samtökin í Líbanon, hætti samtökin ekki hernaði í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×