Fótbolti

Fjögurra daga pakki að sjá Sölva spila

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lagerbäck ásamt Sölva Geir.
Lagerbäck ásamt Sölva Geir. fréttablaðið/pjetur
Lars Lagerbäck verður í Svíþjóð næstu tvær vikur áður en hann snýr til Íslands fyrir leikinn gegn Kýpur á Laugardalsvelli. Þá munu þeir Heimir Hallgrímsson, aðstoðarmaður hans, leggjast yfir leikina í fjóra daga áður en leikmennirnir mæta til æfinga.

Þangað til mun hann fylgjast með leikjum íslensku strákanna, aðallega í gegnum sjónvarpið og á netinu, auk þess að greina leiki Íslands gegn Sviss og Albaníu í þaula.

Þá ætlar hann að skoða síðustu þrjá til fjóra landsleiki Kýpverja og Norðmanna.

Svíinn hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta lítið á leiki íslenskra leikmanna í Evrópu. Hann tekur undir að betra sé að sjá leikina með berum augum en það hafi einnig sína galla.

„Ef einhver nýr leikmaður slær í gegn þá fer ég auðvitað og skoða hann,“ segir Lagerbäck. Hann bendir um leið á að á ferðalagi sjái hann kannski þrjá til fjóra leiki en geti séð mun fleiri haldi hann kyrru fyrir og horfi á þá á skjánum. Svo sé auðvitað dýrt að vera á stöðugu ferðalagi. Þá nefnir hann sem dæmi að Sölvi Geir Ottesen sé kominn til Rússlands og væri gott að geta séð hann spila með berum augum.

„Ef ég færi að horfa á hann tæki ferðalagið fjóra daga og á þeim tíma sæi ég leik með einum landsliðsmanni.“ Hann skilur þó gagnrýnina og kann almennt að meta að leikmenn sendi þau skilaboð að þeir vilji spila með landsliðinu. Það gerði Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður Randers í Danmörku, á dögunum.

„Elmar hefur staðið sig vel Staðreyndin er hins vegar sú að hann á í samkeppni við leikmenn á borð við Gylfa Þór, Eið Smára og Aron Einar. Ég tel þá standa honum framar í augnablikinu.“

Nánar er rætt við landsliðsþjálfarann í ítarlegu helgarviðtali í Fréttablaðinu í dag.


Tengdar fréttir

Eftir höfðinu dansa limirnir

Eftir mörg ár af lélegum úrslitum og enn leiðinlegri fótbolta er aftur orðið gaman að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu. Það er farið að spila almennilegan fótbolta og er þess utan að ná góðum úrslitum. Landinn virtist að mestu orðinn þreyttur á liðinu en viðhorfsbreytingin sést kannski best í því að nánast er uppselt, er þetta er ritað, á landsleik gegn Kýpur mánuði fyrir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×