Fótbolti

Íslendingar standa ekki og bíða eftir hjálp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lars reimar á sig skóna.
Lars reimar á sig skóna. Fréttablaðið/Pjetur
Rok og rigning á þriðjudagskvöldi í september. Tíu þúsund Íslendingar eru á leiðinni heim til sín, tugir þúsunda búnir að slökkva á sjónvarpinu og landar þeirra erlendis hafa lokað netvafranum. Í kjallaraherbergi við Laugardalsvöll haltrar maður á sjötugsaldri. „Ekkert stress,“ segir hann og klofar yfir teygða rafmagnssnúru blaðamanns sem reynir í flýti að lækka hana. Maðurinn er sænskur og virðist glotta út í annað.

Á tveimur árum hefur Lars Lagerbäck umbreytt íslenska karlalandsliðinu. Enginn hefði trúað því að uppselt gæti orðið á viðureign gegn Albaníu á lokastigum undankeppni fyrir heimsmeistaramót. Hvað þá að fólk myndi syngja með þjóðsöngnum og láta í sér heyra frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Fólk er stolt af strákunum sínum og í fyrsta sinn er liðið í dauðafæri til að komast í umspil fyrir HM í Brasilíu næsta sumar.

„Það er frábært að liðið sé komið í annað sæti riðilsins. Nú er þetta algjörlega í okkar höndum,“ sagði Lagerbäck á blaðamannafundinum eftir leikinn. Morguninn eftir flaug sá sænski til síns heima í Svíþjóð þar sem hann býr stærstan hluta ársins. Fram undan er undirbúningsvinna fyrir síðustu leikina í riðlinum eftir mánuð. Vonandi kemst sænski skógarbóndasonurinn í sveitina sína þar sem hann er alinn upp.

Var ekki góður námsmaður
„Þegar ég hef tíma nýt ég þess að fara í skóginn og fá góða líkamsrækt. Ég get það samt afar sjaldan starfs míns vegna,“ segir Lagerbäck, sem er alinn upp á bóndabæ foreldra sinna við þorpið Ovansjö í Mið-Svíþjóð.

Foreldrar hans ræktuðu kindur á bænum, sem Lagerbäck keypti síðar af þeim. Hann heldur þó ekki úti búskap á bænum í dag. Hann á góðar minningar frá uppeldisárunum og segir hann, líkt og hjá öðrum, hafa haft mikil áhrif á líf sitt.

„Ég var mikið með föður mínum á þessum árum og lærði hvernig hlutirnir virka í skóginum,“ segir Lagerbäck, sem þá var á kafi í íþróttum. Hinn sænski renndi sér á skíðum, á skautum í íshokkíi, kastaði körfubolta áður en fótbolti varð fyrir valinu. Hann þakkar fyrir tækifærið til að hafa getað prófað margar íþróttir en viðurkennir að skólinn hafi oft setið á hakanum.

„Ég var ekki frábær námsmaður. Lífið snerist um íþróttir vetur sem sumar og mikill tími fór í þær.“

Ótrúleg velgengni
Fréttablaðið/Pjetur
Lagerbäck spilaði með liði í 3. deild, fyrst sem miðjumaður en síðar sem „libero“, frjálsi varnarmaðurinn sem spilaði fyrir aftan varnarlínuna. Staðan er í raun úrelt í nútímaknattspyrnu.

„Ég var mjög góður,“ grínast Lagerbäck. Hann segist þó aldrei hafa látið reyna á knattspyrnuferilinn fyrir alvöru. Hann hóf störf sem þjálfari á þrítugsaldri og þjálfaði bæði yngri flokka og meistaraflokka hjá minni félögum í Svíþjóð. Eftir að hafa starfað í hlutastarfi hjá sænska knattspyrnusambandinu var hann ráðinn í fullt starf árið 1990 og sinnti yngri landsliðum Svía.

„Ég þjálfaði t.d. Freddie Ljungberg upp öll yngri landsliðin frá því hann var fimmtán ára,“ segir Lagerbäck, en kantmaðurinn átti eftir að spila lykilhlutverk í sigursælu A-landsliði Svía undir stjórn Lagerbäcks.

Undir stjórn Lagerbäcks voru Svíar í fremstu röð í heimsfótboltanum. Hann skilaði landsliðinu á stórmót í sjö tilraunum af átta. Liðið var aldrei sterkara en á HM 2002 og EM 2004 þar sem liðið féll út í útsláttarkeppni á gullmarki gegn Senegal í fyrra skiptið og í vítaspyrnukeppni gegn Hollandi.

„Mér leiðist að tala um heppni í fótbolta. Hlutirnir féllu ekki með okkur í þessum leikjum,“ segir Lagerbäck. Sænsku strákarnir hans hafi haft alla burði til að fara langt en þannig sé fótboltinn.

Skert frelsi
Lagerbäck stýrði sænska liðinu út undankeppnina fyrir HM 2010 þar sem Svíar biðu lægri hlut í riðlinum gegn Portúgal og Dönum og sátu eftir með sárt ennið. Nýtt verkefni kom fljótlega upp á borðið þegar símtal barst frá Nígeríu. Karlalandslið þjóðarinnar var í leit að þjálfara fyrir HM í Suður-Afríku um sumarið.

„Ég var eiginlega viss um að starfið yrði ekki mitt,“ segir Svíinn. Hann hafi þó ekki þurft að hugsa sig um þegar það bauðst honum. Liðið tapaði tveimur leikjum og gerði eitt jafntefli sem þótti ekki góður árangur.

Forseti Nígeríu var svo óánægður að hann setti landsliðið í tveggja ára keppnisbann. Alþjóðaknattspyrnusambandið þurfti að skerast í leikinn.

Þrátt fyrir að mótið hafi verið vonbrigði bauðst Lagerbäck að halda áfram störfum en hann afþakkaði. Hann segir starfið auðvitað hafa verið spennandi en maður á hans aldri vilji ekki skrifa undir til fjögurra ára og búa í Nígeríu eins og óskað var eftir.

„Öryggisgæslan er mikil og þú kemst ekkert einn þíns liðs. Mér fannst erfitt að geta ekki hreyft mig. Ég met frelsi mitt og vil geta gert það sem ég vil.“

Launin ekki allt
Fréttablaðið/Pjetur
Svíinn sneri aftur til föðurlandsins og hélt áfram störfum fyrir sænska knattspyrnusambandið auk þess að sinna verkefnum fyrir evrópska sambandið. Haustið 2011 barst honum erindi frá knattspyrnuforystunni á Íslandi.

Landsliðsþjálfarastaðan stóð honum til boða en Lagerbäck hafði komið oftar en einu sinni til Íslands á vegum UEFA og kynnst land og þjóð.

„Eftir að hafa skoðað þann hóp leikmanna sem spilaði á Evrópumóti 21 árs landsliða það sumar virkaði þetta mjög spennandi.“

Töluverð umræða spannst um laun Svíans þegar hann var ráðinn til starfa. Forveri hans, Ólafur Jóhannesson, var með um 800 þúsund krónur í mánaðarlaun árið 2010 en ljóst er að laun Svíans eru töluvert hærri. Lagerbäck segist sáttur við samning sinn, annars hefði hann ekki skrifað undir, en segir peninga ekki skipta öllu.

„Auðvitað vil ég góð laun en þau skipta minna máli. Ég vil fyrst og fremst vera í skemmtilegri vinnu sem ég nýt mín í,“ segir Lagerbäck. Hann hefur áður bent á að honum hafi staðið til boða fleiri en eitt þjálfarastarf í olíulöndunum auk Nígeríustarfsins. Þar séu launin af annarri stærðargráðu.

Stoltið skiptir máliÍslenska liðið er í öðru sæti riðils síns sem stendur. Liðið hefur unnið fjóra leiki af átta í riðlinum sem er jöfnun á besta árangri landsliðsins. Enn eru tveir leikir eftir. Fæstir skilja hvernig landslið svo fámennrar þjóðar geti staðið sig svo vel í langvinsælustu íþróttagrein í heimi.

Sá sænski hefur sínar hugmyndir. Gott starf félaganna og KSÍ sé auðvitað grunnatriði en auk þess séu aðstæður mjög góðar. Sjö keppnishallir innanhúss geri það að verkum að hægt sé að spila allt árið.

„Stærstu félögin spila bæði í deildarkeppni utan- og innanhúss. Keppnistímabilið er í raun lengra en til dæmis í Svíþjóð,“ segir Lagerbäck. Fyrir vikið fái liðin keppnisleiki árið um kring. Hann dáist líka að viðhorfi landsmanna.

„Íslendingar eru vanir ábyrgð. Þeir standa ekki og bíða eftir hjálp. Þetta viðhorf sést hjá strákunum í landsliðinu sem klæðast landsliðsbúningnum stoltir. Það hefur líka áhrif,“ segir Svíinn. Skemmst er að minnast orða hans eftir sigurinn á Albaníu um Gylfa Þór Sigurðsson sem átti stórleik.

„Það besta við Gylfa er að þótt hann sé leikmaður í hæsta gæðaflokki þá leggur hann afar hart að sér í níutíu mínútur. Það sér maður ekki oft hjá leikmönnum með svo mikla hæfileika.“

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Lagerbäck haldi áfram í starfi eftir yfirstandandi undankeppni. Þó er ljóst að samningurinn verður sjálfkrafa framlengdur um sex mánuði takist liðinu hið ótrúlega og komist í lokakeppnina í Brasilíu. Liðið gæti þó verið enn sterkara í undankeppni Evrópumótsins árið 2016 en góður árangur núverandi 21 árs landsliðs hefur vakið athygli.

„Það eru margir hæfileikaríkir leikmenn í 21 árs liðinu. Þeir þurfa hins vegar að komast í eins góð lið og deildir og mögulegt er. Þar er lykilatriði að þeir fái að spila til að geta þróast sem leikmenn,“ segir Svíinn sem hefur lýst sér sem bjartsýnum raunsæismanni. Hann leyfði sér að horfa fram á veginn í kjallaraherberginu á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.

„Við tökum inn nokkra leikmenn úr 21 árs landsliðinu með tímanum og verðum meðal þeirra bestu í Evrópu eftir nokkur ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×