Fótbolti

Ronaldo: Á skilið að vinna Gullboltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo hefur sett stefnuna á að verða útnefndur leikmaður ársins af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, í næsta mánuði.

Ronaldo hefur síðustu tvö ár lent í öðru sæti í kjörinu, á eftir Lionel Messi. Báðir eru tilnefndir nú, ásamt Frakkanum Franck Ribery.

Ronaldo hefur til þessa skorað 34 mörk í 25 leikjum með portúgalska landsliðinu og Real Madrid á tímabilinu.

„Á ég skilið að vinna? Ég tel að ég eigi skilið að vinna Gullboltann á hverju ári. Ég myndi gjarnan vilja vinna,“ sagði Ronaldo við fjölmiðla í heimalandinu.

„Ég hef nú verið á verðlaunapallinum í sex ár og í úrvalsliðinu í sjö eða átta ár. Ég er metnaðarfullur einstaklingur og leikmaður sem vill ávallt það besta. Ég hef þroskast með árunum og reynslan hefur gert mér gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×