Enski boltinn

Gerrard ekki meira með á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool. Mynd/AP
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hefur eins og Luis Suarez spilað sinn síðasta leik með liðinu á þessu tímabili. Gerrard var alltaf á leiðinni í aðgerð á öxl og Liverpool gaf það út í dag að aðgerðinni verði flýtt.

Gerrard átti að fara í aðgerðina eftir tímabilið en öxlin hefur versnað á undanförnum vikum og því var ákveðið að fyrirliðinn færi í aðgerðina í þessari viku.

Liverpool á ekki lengur raunhæfa möguleika á sæti í Evrópukeppninni á næstu leiktíð og flest bendir til þess að liðið endi í sjöunda sæti. Það er því ekki mikið undir í lokaleikjum tímabilsins.

Gerrard verður frá í sex til átta vikur eftir aðgerðina og ef hann hefði beðið með aðgerðina þar til eftir síðasta leik, þá hefði hann hugsanlega misst af byrjun undirbúningstímabilsins fyrir næstu leiktíð.

Gerrard mun missa af útileik á móti Fulham og heimaleik á móti Queens Park Rangers og þá verður hann ekki með í vináttuleik við Ajax Cape Town sem fer fram í Höfðaborg í Suður-Afríku tveimur dögum eftir síðasta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Gerrard verður heldur ekki með enska landsliðinu í leikjum liðsins í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×