Enski boltinn

Katrín og félagar fóru illa með meistarana á Emirates

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir í leiknum í kvöld.
Katrín Ómarsdóttir í leiknum í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Katrín Ómarsdóttir og félagar hennar í Liverpool áttu frábæran leik á Emirates-leikvanginum í kvöld þegar Liverpool burstaði Arsenal 4-0 í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta.

Þetta eru afar áhugaverð úrslit enda hefur Arsenal-liðið unnið ensku úrvalsdeildina undanfarin tvö ár og þetta er stærsta heimatap liðsins í afar langan tíma.

Katrín var í byrjunarliði Liverpool og spilaði allan leikinn en liðið hefur nú unnið tvo fyrstu leiki  sína á tímabilinu og er eitt á toppi deildarinnar.

Þetta var fyrsti leikur Arsenal-liðsins í deildinni en liðið hefur verið á fullu í Meistaradeildinni þar sem Arsenal komast alla leið í undanúrslit í ár.

Amanda da Costa skoraði fyrsta mark Liverpool á 39. mínútu og bætti síðan öðru marki við á 52. mínútu. Louise Fors skoraði beint úr hornspyrnu á 55. mínútu og skoraði síðan aftur aðeins tveimur mínútum síðar. Þannig urðu lokatölur leiksins og frábær útisigur hjá Katrínu og félögum í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×