Fótbolti

Brede: Árangur Íslands hefur ekki komið á óvart

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Brede Hangeland, fyrirliði norska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það ekki vera vandamál að mótivera sig fyrir leikinn gegn Íslandi á þriðjudag.

„Það á ekki að þurfa að koma þér í gírinn þegar þú spilar fyrir hönd þjóðar þinnar. Auðvitað erum við vonsviknir að geta ekki farið á HM. Þú færð hins vegar bara tíu leiki með landsliðinu á ári og því er auðvelt að gíra sig upp fyrir þá. Við hlökkum til leiksins.“

Miðvörðurinn stóri og stæðilegi segir það litlu máli skipta þótt Íslendingar séu í heimsókn. Það hafi engin áhrif á það hvernig hann og hans menn nálgist leikinn.

„Ég kann vel við Ísland, leikmenn liðsins, hugarfar leikmanna og þá sjálfa. Auðvitað er þetta stór leikur fyrir Ísland því möguleikinn á sæti á HM er fyrir hendi. Þeir horfa á það en við viljum líka vinna sigur.“

Aðspurður um hvort liðið sé sterkara segir miðvörðurinn erfitt að átta sig almennilega á því. Í þessum riðli virðist liðin geta lagt hvert annað að velli og lítill munur á getu þeirra.

„Ísland hefur þó tekið stórt skref og er með marga leikmenn í stórum félögum í Evrópu. Ef þú horfir á hvar þeir spila má segja að þeir séu stærri en við. Mér finnst mikið til þess koma en árangurinn hefur ekki komið mér á óvart.“

Hangeland segir alltaf pressu á landsliðsmönnum þegar þeir spili fyrir þjóð sína. Leikurinn gegn Íslandi sé engin undantekning.

„Það er alltaf pressa þegar þú spilar fyrir þjóð þína. Allir reikna með því besta og auðvitað reynum við það. Vonandi dugar það til sigurs.“

Það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×