Erlent

Búrhvalur sprakk í Færeyjum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Skjámynd úr frétt KVF
Búrhvalur sem drapst rétt við strendur Færeyja var dreginn á land þar í dag. Hvalurinn, sem er risa flykki, var dreginn á hvalstöðina við Áir í Færeyjum en hún hefur ekki verið notuð í um 30 ár. Þetta kemur fram í fréttum KVF í Færeyjum. Þegar hvalurinn var verkaður sprakk kviður hans svo að innyfli þeyttust upp í loft. Myndband af atvikinu má sjá hér.

Búrhvalir eru stærstir tannhvala. Samkvæmt upplýsingum af Vísindavef Háskóla Íslands getur hann orðið allt að 15 metrar og vegið yfir 50 tonn. Þar segir að Búrhvalir hafi verið mikið veiddir á síðastliðnum öldum, fyrst og fremst vegna lýsis.

Ekki virðast liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hversu mörg búrhveli eru í heiminum í dag. Bandaríski líffræðingurinn Jan Whitehead sem gerði mat á heildarstofninum telur að í dag séu dýrin um 360 þúsund. Aðrir vísindamenn segja dýrin mun fleiri og jafnvel hátt í tvær milljónir. Veiðar á búrhval hófust skipulega í upphafi 18 aldar en veiðum í atvinnuskyni hafa ekki verið stundaðar síðan árið 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×