Fótbolti

Aron Einar: Einbeitum okkur að EM 2016

Kolbeinn Tumi Daðason í Zagreb skrifar
„Við lærum af þessu og verðum að taka þetta inn í næstu keppni og einbeita okkur að því. Taka það jákvæða úr þessu og sleppa því neikvæða,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.

Aron vildi ekki skýla sér á bak við að taugarnar hefðu verið of þandar.

„Við erum vanir pressu, setjum hana á okkur sjálfir. Taugarnar koma alltaf inn en það er ekki aðalástæðan. Við þurftum að einbeita okkur betur að einföldum sendingum og þá hefði þetta kannski farið öðruvísi,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.

„2-0 undir fórum við kannski að drífa okkur of mikið. Þetta er óskiljanlegt eins og er. Við vorum fullir sjálfstrausts fyrir leikinn og í hálfleik þannig að það er ekki við það að sakast.“

Aron Einar var ánægur með spurningu blaðamanns hvort EM 2016 væri ekki verðugt og raunhæft verkefni sem hægt væri að einbeita sér að.

„Við erum ungir og tökum reynsluna úr þessu. Það hefði auðvitað verið sætt að klára þetta og fara á HM. Við getum ekki tekið það til baka núna, leikurinn er búinn,“ sagði Aron Einar svekktur,

„Við einbeitum okkur að næstu keppni og ef við komumst áfram þar væri það frábært.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×