Innlent

Löskuð Fernanda enn í vari

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Allt kapp er lagt á að afstýra umhverfisslysi við Reykjanesskaga þar sem varðsskipið Þór er nú með flutningaskipið Fernöndu í togi. Litlar líkur eru á að Fernanda sökkvi í sæ að mati Landhelgis-gæslunnar.

Varðskipið Þór hefur haft flutningaskipið Fernöndu í togi við Reykjanesskaga frá því að skipið var flutt alelda úr Hafnarfjarðarhöfn á föstudaginn. Slæmt veður hefur verið við Hafnir í dag en úr fjöruborðinu við Kirkjuvog blasir einkennileg sjón. Þór dregur þar Fernöndu fram og til baka.

Slökkviliðsmenn fóru um borð í skipið fyrr í dag og sáu þar að járn var sveigt og bogið, slíkur var hitinn í Fernöndu. Kvoðu var sprautað í vélarúm og neðri þilför skipsins til að tryggja að eldurinn væri sannarlega dauður.

Eins og sjá má er Fernanda verulega löskuð eftir brunann mikla. Slökkviliðsmenn hafa metið aðstæður um borð í Fernöndu í dag, þeim til aðstoðar voru tveir gúmmíbátar sem ferjuðu bæði menn og búnað milli varðskips og járnhrúgunnar sem eitt sinn var Fernanda.

Ákvörðun um framhaldið verður væntanlega tekin í kvöld eða á morgun.MYND/FRÉTTASTOFA
Ólíklegt þykir að Fernanda verði flutt til Hafnar í dag enda eru óvissuþættirnir margir. Ákvörðun um framhaldið verður væntanlega tekin í kvöld eða á morgun. Ljóst er að það verður vandasamt verk að dæla þeim hundrað tonnum af olíu sem eru í tönkum Fernöndu.

„Ekki verður haldið áfram með Fernöndu í dag,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerða hjá Landhelgisgæslunni. „En við munum halda áfram að tryggja það að engin glóð leynist í skipinu.“

Sp. blm. Er engin hætta á að skipið beinlínis sökkvi við Reykjanesskaga?

„Skipherra og hans menn eru sannfærðir um að litlar líkur séu á því. Skipið flýtur vel og lætur vel í sjónum.

Það hvernig farið verður með olíuna um borð í Fernöndu er á forræði Umhverfisstofnunar og undirverktaka.

„Varðandi Wilson Muuga þá heppnaðist sú aðgerð mjög vel. Olíudreifing kom að því máli meðal annara og þeir eru manna fremstir hér á landi til að takast á við þetta verkefni sem er Fernanda,“ segir Ásgrímur.

Landhelgisgæslan tilkynnti síðdegis í dag að ákveðið hefði verið að draga Fernöndu inn fyrir Garðskaga og leiti vars í ríkjandi vindum. Staðan verður endurmetin í fyrramálið.


Tengdar fréttir

Ennþá logar vel í skipinu

Varðskipið Þór er komið á staðinn og notar slökkvibyssur við að kæla skipið að utanverðu.

Fernanda undir Hafnarbergi

Skipið Fernanda er enn í togi en varðskipið Þór hefur þurft að leita í var með það vegna vonds veðurs.

Skipverjarnir heilir á húfi

Skipverjarnir 11 sem þyrla landhelgisgæslunnar TF-GNA bjargaði fyrr í dag eru heilir á húfi samkvæmt upplýsingum frá landhelgisgæslunni.

Geta varðskipsins Þórs nú öllum ljós

Stærsta verkefni varðskipsins Þórs síðan það kom nýtt til landsins í september 2011 er nú yfirstandandi. Aðgerðir við að slökkva elda um borð í farskipinu sýna glögglega getu skipsins í björgunarstarfi.

Leikskólabörnum haldið inni út af brunanum

„Það er svo mengað loftið að við fórum ekkert út í morgun og erum með lokaða glugga. Öll börnin eru inni,“ segir Særún Þorláksdóttir leikskólastjóri.

Sprauta enn sjó á Fernanda

Varðskipið Þór er enn með flutningaskipið Fernanda á sömu slóðum og í gærkvöldi þ.e vestur af Faxaflóa en það svæði telst fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun.

Enn logar í Fernanda

Varðskipið Þór er enn við slökkvistörf vestur af Faxaflóa, vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda. Um borð í Þór eru sex slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×