Innlent

Brú skipsins alelda - Öllum skipverjum bjargað

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Þyrla landhelgisgæslunnar TF-GNA bjargaði fyrir stundu öllum 11 skipverjum flutningaskipsins Fernanda. Eldur kom í vélarrúmi skipsins og var brú skipsins alelda þegar þyrla gæslunnar kom á staðinn. Skipið er staðsett 20 sjómílum suður af Vestmannaeyjum. Skipverjarnir verða fluttir til Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum af vefsíðunni Marine Traffic þá átti skipið að koma til hafnar í Hafnarfirði á morgun. Þar átti skipið að sækja farm af minkafóðri til útflutnings til Danmerkur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skipið Fernanda lendir í hrakningum við Ísland. Það strandaði í innsiglingunni í Sandgerði í maí á síðasta ári. Fernanda er skráð í Dóminíska lýðveldinu.

Skipið er orðið vélarvana og er veður á svæðinu mjög slæmt. Eyjafréttir greina frá því að Björgunarbáturinn Þór hafi lagt ag stað með björgunarsveitarmenn og hafsögubáturinn Lóðsinn fylgir með í kjölfarið með slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, m.a. með búnað til reykköfunar. Slökkviliðsmenn freista þess að slökkva eldinn.

Haugasjór er úti fyrir Vestmannaeyjum þessa stundina. Á Stórhöfða er vindhraði 27 m/s og hafa hviðurnar mest farið í 34 m/s. Ölduhæð við Surtsey er 4,2 metrar og því tekur tíma að komast á slysstað.

Hér má finna viðtal við Ásgrím Lárus Ásgrímsson, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, þar sem hann lýsir hinni giftusamlegu björgun áhafnarinnar.

Fernanda er staðsett 18 sjómílum frá Vestmannaeyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×