Fótbolti

Forráðamenn Erreá vilja sjá Íslendinga á HM

Stefán Árni Pálsson skrifar
Leikmenn íslenska landsliðsins klæðast Erreá búningi.
Leikmenn íslenska landsliðsins klæðast Erreá búningi. mynd/vilhelm
Íslenska landsliðið í knattspyrnu mun mæta því króatíska í tveimur leikjum í umspili um laust sæti á HM í Brasilíu árið 2014. Leikirnir fara fram 15. og 19. nóvember.

Liðið getur tryggt sér sæti á heimsmeistaramótinu og yrði það í fyrsta skipti í sögunni.

Íslenska liðið mun fá stuðning úr óvæntri átt en forráðamenn ítalska íþróttavörufyrirtækisins Erreá vilja ólmir sjá strákana okkar á lokamótinu í Brasilíu.

Íslenska liðið hefur leikið í búningum frá Erreá síðan árið 2004 og sú aukin umfjöllun sem íslenska landsliðið hefur fengið í þessari undankeppni er mönnum innan fyrirtækisins að skapi.

Fabrizio Taddei.
Fabrizio Taddei, útflutningsstjóri Erreá, vill meina að sala á fatnaði Erreá, gæti farið upp um 100 % takist íslenska landsliðinu að leggja Króata af velli og komast á lokakeppnina.

„Maður heldur alltaf með þeim liðum sem klæðast okkar fatnaði,“ sagði Taddei.

„Gengi liðsins hefur verið ótrúlegt og eitthvað sem maður lét sig aðeins dreyma um gæti nú orðið að veruleika.“

Þau lið sem í dag klæðast búningi Erreá eru enska úrvalsdeildarliðið Norwich, Nantes í Frakklandi, spænska úrvalsdeildarliðið Rayo Vallecano og síðan ítalska úrvalsdeildarliðið Parma en höfuðstöðvar Erreá eru staðsettar í Parma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×