Fótbolti

Ganamenn þora ekki að spila í Kaíró

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Forráðamenn knattspyrnusambands Gana óttast mikið um öryggi sitt og leikmanna sinna í seinni leik Gana og Egyptalands í umspilinu um sæti á HM á Brasilíu. Ganamenn hafa nú gengið svo langt í að óska þess að FIFA færi leikinn frá Egyptalandi.

Gana er svo gott sem komið með farseðilinn til Brasilíu eftir 6-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum en það þarf samt að spila seinni leikinn. Leikurinn á að fara í höfuðborginni Kaíró þar sem fjöldi fólks hefur farist í borgarastyrjöld sem geisar í landinu.

„Það er mín trú að það besta í stöðunni sé að flytja leikinn frá Kaíró vegna þess ástands sem er í borginni. Við getum ekki sett okkar leikmenn, starfsmenn og stuðningsmenn í aðstöðu þar sem þeir eru í lífshættu. Það er aldrei hægt að bæta fyrir tapað líf," segir Kwesi Nyantaki, forseti knattspyrnusambands Gana.

„Það besta í stöðunni væri að FIFA myndi færa leikinn frá Egyptalandi. Það eru liðnar tvær vikur síðan við lögðum inn þessa beiðni hjá Alþjóðasambandinu," sagði Nyantaki.

Leikurinn á að fara fram 19. nóvember næstkomandi og fyrir mánudaginn næstkomandi þurfa forráðamenn egypska knattspyrnusambandsins að fullvissa FIFA um að þeir geti tryggt öryggi allra á leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×