Fótbolti

Haldið þið að ég sé miskunnarlaus blóðsuga?

Ræða Blatter er áhugaverð í meira lagi.
Ræða Blatter er áhugaverð í meira lagi.
Hinn umdeildi forseti FIFA, Sepp Blatter, varði sjálfan sig með kjafti og klóm í áhugaverðri ræðu sem hann hélt í dag. Blatter segist ekki skilja alla þá gagnrýni sem hann fái í fjölmiðlum.

Alls konar hneykslismál hafa komið upp hjá FIFA á valdatíma hans þar og trúverðugleiki sambandsins hefur beðið mikla hnekki.

Rannsókn er til að mynda í gangi núna á því hvernig staðið var að málum er valið var hvaða þjóðir áttu að fá HM 2018 og 2022.

"Þið haldið kannski að þið vitið hver ég er, hvað FIFA sé og hvað við gerum. Þið haldið kannski að ég sé miskunnarlaus blóðsuga sem sjúgi blóðið úr heiminum. Að ég sé einhver Guðfaðir og hjartalaus maður," sagði dramatískur Blatter.

"Það er búið að kalla mig öllum illum nöfnum síðustu ár og einstaklingur yrði að hafa hjarta úr steini ef hann væri ekki sár yfir því.

"Spyrjið ykkur hvað hef ég gert? Hvernig stendur á því að staðan er orðin svona? Er allt FIFA að kenna? Erum við ekki bara knattspyrnusamband að vinna með hagsmuni íþróttarinnar í huga? Fólk vill auðvitað alltaf kenna einhverjum um en ég skil ekki hvernig þetta endaði svona."

Blatter ræddi einnig um þau ummæli Yaya Toure að svartir leikmenn ættu að sleppa því að fara á HM í Rússlandi þar sem kynþáttaníð væri algengt þar.

Blatter segir þá umræða vera ranga. Það sé ekki gott vopn í baráttunni að sleppa því að mæta til leiks.

Forsetinn sagði einnig í ræðu sinni að það væri alrangt að FIFA hefði eitthvað sérstaklega á móti Englendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×