Fótbolti

Neymar skoraði beint úr aukaspyrnu í sigri Brassa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumenn fagna hér öðru marka sinna.
Brasilíumenn fagna hér öðru marka sinna. Mynd/AP
Brasilíumenn eru í góðum gír þessa dagana og unnu í dag 2-0 sigur á Suður-Kóreu í vináttulandsleik á Seoul World Cup leikvanginum í Suður-Kóreu. Þetta var þriðji öryggi sigur brasilíska landsliðsins í röð og Luiz Felipe Scolari, sem settist í þjálfarastólinn fyrir ári síðan, er greinilega að gera flotta hluti með liðið.

Neymar, leikmaður Barcelona, skoraði fyrra markið beint úr aukaspyrnu á 44. mínútu en það síðara skoraði Chelsea-maðurinn Oscar á 49. mínútu eftir stungusendingu frá Paulinho sem spilar með Tottenham.

Brasilíumenn töpuðu 0-1 á móti Sviss í vináttulandsleik í ágúst en hafa síðan unnið 6-0 sigur á Ástralíu og 3-1 sigur á Portúgal. Neymar er sá eini sem hefur skorað í öllum þessum þremur sigurleikjum.

Brasilíumenn spila síðan vináttulandsleik við Sambíu í Peking á þriðjudaginn og þar má búast við einum sigrinum til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×