Fótbolti

Strachan: Hættið að væla og farið að æfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gordon Strachan.
Gordon Strachan. Mynd/AFP
Gordon Strachan, landsliðsþjálfari Skota, segir að skoskir knattspyrnumenn verði að æfa meira ætli þeir sér að verða betri í fótbolta. Skotar eru að undirbúa sig fyrir lokaleik sinn í undankeppni HM en eiga enga möguleika á að komast áfram.

„Við þurfum að gera sjálfum okkar greiða. Við Skotar þurfum að hætta að vorkenna sjálfum okkur," sagði Gordon Strachan við BBC-útvarpsstöðina í Skotlandi.

„Ekki fara í snóker-hallirnar eða hlamma sér í sjónvarpssófann. Æfið lengur. Ef þið gerið það þá verði þið betri leikmenn," sagði Strachan og hann gefur lítið fyrir þá afsökun að erlendir leikmenn séu að taka of mikið pláss í skosku deildinni.

„Leikmenn verða að sýna meiri aga til þess að bæta sig. Æfið lengur í stað þess að væla yfir erlendum leikmönnum. Við verðum sjálfir að bæta okkur. Ef menn leggja meira á sig þá verða þeir betri. Ef við hækkum standardinn í skoskum fótbolta þá verða venjulegir erlendir leikmenn ekki lengur í deildinni," sagði Strachan.

Skotar hafa náð í átta stig í fyrstu níu leikjum sínum í undankeppninni og framundan er lokaleikurinn við Krótata sem hafa þegar tryggt sér annað sætið og sæti í umspilinu. Belgar unnu riðilinn örugglega og eru komnir á HM í Brasilíu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×