Fótbolti

Gylfi Þór: Lars hefur verið mjög sveigjanlegur

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Gylfi Þór á æfingu íslenska liðsins í dag.
Gylfi Þór á æfingu íslenska liðsins í dag. Mynd/Vilhelm
„Við höfum sótt til sigurs í öllum leikjunum í þessum riðli. Það væri vitleysa að ætla að breyta því og fara að verja eitthvað og spá í hvað Slóvenar og Svisslendingar eru að gera. Við erum bestir þegar við sækjum og reynum að vinna leikinn. Við nálgumst leikinn ekkert öðruvísi,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Gylfi og félagar segjast klárir í slaginn fyrir leikinn gegn Norðmönnum á morgun. Sá sparkvissi fagnar því að búið sé að selja yfir þúsund miða á leikinn til stuðningsmanna íslenska liðsins.

„Vonandi koma Íslendingarnir í löndunum í kring á völlinn. Það væri algjörlega frábært ef það kæmu nokkur þúsund manns í bláum fötum að styðja okkur. Það væri geðveikt,“ sagði Gylfi á hóteli íslenska liðsins í Osló. Hann var afslappaður líkt og félagar hans sem voru ýmist uppi á herbergi að slaka á, í sjúkraþjálfun eða að spjalla saman í anddyrinu.

Gylfi segir þó sérstaklega gott hvernig að málum sé staðið þegar íslenska landsliðið dvelur á hótelum á Íslandi í nálægð við heimili sín.

„Lars hefur verið mjög sveigjanlegur. Á milli æfinga og kvöldmats er frítími þar sem við getum hitt fjölskyldu og vini. Það gefur okkur frið og ró að geta slappað af. Þurfa ekki að hanga á hótelinu allan sólarhringinn.“

Gylfi Þór var einbeittur en hress þegar blaðamaður hitti á hann í dag. Hann fagnar því að þeir dagar séu liðnir að íslenska liðið verjist og beiti skyndisóknum. Það hafi breyst.

„Breytingin snýr líka að því að við einbeitum okkur mest að okkar leik þótt við förum yfir andstæðinginn, föst leikatriði og hvernig þeir spila. Aðalatriðið er að við erum að gera réttu hlutina. Erum þéttir í vörn og spilum flottan sóknarbolta,“ segir Gylfi Þór.

Hafnfirðingurinn hefur verið í hlutverki miðjumanns í undanförnum leikjum með landsliðinu. Áður var hann meira út á kantinum sem hefur einnig verið hlutskipti hans mest megnis hjá Tottenham.

„Núna er ég mikið meira í spili og byrja einhverjar sóknir. Svo tímaset ég hlaupinn inn í teiginn þegar færi gefst á því. Ég veit að ég er ekki einhver kantmaður sem er líklegur til að taka bakvörðinn á tíu sinnum og spretta framhjá honum. Ég leita frekar inn á miðjuna,“ segir Gyfli vel meðvitaður um styrkleika sína og veikleika. Hann kann mjög vel við að spila á miðjunni með Aroni Einari Gunnarssyni.

„Það er gott að vera með Aroni sem bíður í okkar sóknum. Auðvitað þarf maður að skila sér til baka og vinna vel í vörn. Ég er í fínu formi og það er gaman að hlaupa og berjast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×