Fótbolti

Aron Einar: Við erum staðráðnir að gera vel á morgun

„Menn eru einbeittir og við vitum að verkefnið er ekki búið,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliðið íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Kolbein Tuma Daðason fyrr í dag.

Ísland mætir Norðmönnum í lokaleik riðlakeppninnar í undankeppni HM 2014 annað kvöld ytra og getur liðið tryggt sér sæti í umspili um laust sæti á lokamótinu í Brasilíu næsta sumar.

„Við erum staðráðnir að gera vel á morgun og sjá um okkar mál bara sjálfir. Liðið lék vel gegn Kýpverjum og getum tekið fullt úr þeim leik sem mun nýtast okkur gegn Norðmönnum.“

Norska landsliðið hefur verið mikið gagnrýnt að undanförnu en liðið á ekki möguleika á því að komast á HM í Brasilíu að ári. Ísland getur í raun komist áfram í umspilið þó liðið tapi fyrir Norðmönnum annað kvöld.

„Þetta er nokkuð sérstök staða en við erum búnir að vinna okkur inn fyrir henni. Við erum samt sem áður ekkert að fara gefa neitt eftir og vitum að Norðmenn eru með gott lið.“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×