Fótbolti

Norðmönnum blöskrar hátt miðaverð

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Per-Mathias Högmo, landsliðsþjálfari Noregs, ræðir við leikmann á æfingu liðsins í Ósló.
Per-Mathias Högmo, landsliðsþjálfari Noregs, ræðir við leikmann á æfingu liðsins í Ósló. Mynd/Vihelm
Þeir sem ætla að skella sér á viðureign Noregs og Íslands í undankeppni HM í kvöld þurfa að kaupa miða á verðbilinu átta þúsund til tólf þúsund íslenskar krónur.

Miðaverð á leikinn hefur aðeins einu sinni verið jafnhátt í yfirstandandi undanekppni. Það var á viðureign Noregs og Sviss. Þá var reyndar hægt að fá miða á tvo leiki í einu og spara þannig krónur. Það var ekki hægt fyrir leikinn gegn Íslandi.

Norska knattspyrnusambandið segir ástæðuna fyrir háu miðaverði vera þá að reiknað var með að leikurinn yrði úrslitaleikur í riðlinum. Mikið yrði undir. Nú er staðan sú að leikurinn skiptir Norðmenn engu máli. Þar sem nokkur þúsund stuðningsmenn hafi verið búnir að kaupa miða á leikinn sé ekki til umræðu að lækka verðið.

Miðaverð fyrir börn er um tvö þúsund íslenskar krónur. Fjölskylda með tvö börn þarf því að reiða fram um 20.000 íslenskar krónur.

Talið er að búið sé að selja á bilinu 8000-9000 miða á leikinn.

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×