Fótbolti

Fjölmargir íbúar Bergen halda með Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
„Þeir eru aðeins að ströggla akkurat núna,“ segir landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson sem hefur verið atvinnumaður hjá Brann í Bergen undanfarin fimm ár.

Þótt norska liðið sé í lægð segir Birkir það hættulegra en margir reikni með.

„Þeir hafa að engu að keppa, eru að byggja upp þennan nýja leikstíl sinn og eiga eftir að fara algjörlega stresslausir inn í leikinn. Það er enginn sem býst við neinu af þeim. Þá getur alveg verið að það smelli eitthvað hjá þeim en eins gætu þeir brotnað saman,“ segir Birkir Már.

Hægri bakvörðurinn segir félaga sína hjá Brann ánægða fyrir sína hönd.

„Ég fæ í það minnsta fullt af hamingjuóskum þegar við vinnum leiki. Þeir eru í raun og veru ánægðir með þetta,“ segir Birkir Már. Það komi líka til af því að íbúar í Bergen séu aðeins öðruvísi en annað fólk í Noregi.

„Það lítur á sig sem Bergensere en ekki Norðmenn. Þannig að þeir halda alveg með Íslendingum.Margir í það minnsta. Margir segjast halda með okkur gegn Noregi.“

Birkir er eldfljótur og spurning hvort hann sé sá fljótasti í landsliðinu.

„Þeir eru nokkrir öskufljótir en ég hef aldrei tekið kapphlaup við neinn þannig að ég get ekkert sagt um það.“

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×