Fótbolti

Lars reynir að útskýra eftirtektarverðan árangur landsliðsins

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
„Ég tel aðalástæðuna vera sjö innanhússknattspyrnuvelli í fullri stærð. Öll ungmenni geta því spilað árið um kring,“ segir landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck.

Sá sænski reyndi að svara spurningum forvitinna blaðamanna sem mættir eru til Ósló til að fylgjast með íslenska liðinu. Hvernig það megi vera að landsliðs 320 þúsund manna þjóðar sé að berjast um sæti í lokakeppni stórmóts.

„Svo eru tvö keppnistímabil á Íslandi. Ein vetrardeild og ein sumardeild,“ sagði Lagerbäck. Vísaði hann þar í undirbúningsmótin eins og Reykjavíkurmót og fleiri mót auk Lengjubikarsins sem fara fram á fyrri hluta ársins. Svo taki við sumardeildin.

„Keppnistímabilið á Íslandi er því lengra en til dæmis í Svíþjóð. Ég tel betra að hafa lengra tímabil en langt undirbúningstímabil,“ sagði Lagerbäck.

Svíinn minntist einnig á þá staðreynd að í augnablikinu væru margir leikmenn landsliðsins í blóma hjá félagsliðum sínum.

„Þegar ég tók við voru margir á bekknum hjá liðum sínum. Nú eru flestir hjá góðum félögum í góðum deildum og eru að fá leiktíma,“ sagði Lagerbäck. Heimir Hallgrímsson bætti við að framherjarnir til að mynda væru að skora mörk og margir hverjir að blómstra.

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×