Fótbolti

Afmælisbarnið safnaði flöskum

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Mynd/Heimasíða Strömsgodset
Norðmenn binda miklar vonir við framherjann Ola Kamara í næstu verkefnum liðsins. Kamara spilaði sinn fyrsta landsleik í 3-0 tapinu gegn Slóveníu á föstudag.

Kamara, sem skoraði hefur tíu mörk í jafnmörgum leikjum í norsku úrvalsdeildinni með Strömsgodset, kom inn á sem varamaður í Slóveníu. Fastlega má reikna með því að hann byrji inn á í kvöld.

Framherjinn 24 ára heldur upp á afmæli sitt í dag. Því má segja að hann komi nokkuð seint fram á sjónarsviðið en til samanburðar eru margir af lykilmönnum íslenska liðsins jafngamlir eða yngri en Kamara.

Fyrstu kynni Norðmanna af Kamara voru þegar hann var sjö ára gamall. Þá tóku sjónvarpsmenn TV 2 hann tali að loknum fræknum sigri á Brasilíu árið 1997 þar sem Kamara safnaði flöskum af miklum eldmóð að leik loknum. Fór Kamara víst á kostum í viðtalinu.

Við þetta má bæta að tíu mörkin hans Kamara setja hann í fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn í efstu deild. Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Start, situr í þriðja sæti listans með ellefu mörk. Hann kemst ekki í landsliðshópinn hjá Íslandi.

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×