Fótbolti

Eiður Smári: Getum aðeins kennt okkur sjálfum um ef þetta klúðrast

Kolbeinn Tumi Daðason í Ósló skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen var ekki tilbúinn að svara þeirri spurningu blaðamanna játandi hvort þetta væri hans stærsti leikur á ferlinum.

„Fyrir landsliðið er þetta hins vegar stærsti leikurinn í sögunni. Við höfum örlög okkar í eigin höndum og getum aðeins kennt sjálfum okkur um ef þetta klúðrast,“ hefur Aftenposten eftir Eiði Smára. Framherjinn hefur spilað marga stórleiki bæði á Englandi og á Spáni á glæsilegum ferli og unnið til stærstu titla í evrópskri knattspyrnu.

Skærasta stjarna íslenskrar knattspyrnu frá upphafi var miðpunktur athyglinnar þegar blaðamenn fengu að ræða við kappann fyrir æfingu íslenska liðsins í gær. Norskir, sænskir og breskir blaðamenn hópuðust að Eiði Smára sem svaraði spurningum þeirra í 22 mínútur.

„Í fyrsta skipti á Ísland marga gæðaleikmenn í liðinu á sama tíma. Við höfum þó átt marga góða leikmenn í gegnum tíðina en þeir hafa ekki spilað á sama tíma,“ segir Eiður Smári um stöðuna á landsliðinu í dag.

Markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi segir ljóst að innanhússhallirnar á Íslandi séu stór ástæða þess hve marga frambærilega leikmenn Íslendingar hafa fram að tefla í dag.

„Það eru tíu ár síðan við fengum hallirnar og hægt var að spila fótbolta allt árið. Ég er pottþéttur á að það sé ástæðan.“

Norskir fjölmiðlamenn spurðu Eið Smára hvort það væri eitthvað sem Norðmenn gætu lært af Íslendingum þegar kemur að knattspyrnunni í ljósi góðs árangurs íslenska landsliðsins.

„Við erum góðir núna en við megum ekki láta það stíga okkur til höfuðs því við erum fámenn þjóð. Noregur hefur alla tíð verið stærri fótboltaþjóð, bæði ef litið er til sögunnar og styrkleikalisti FIFA skoðaður. Ísland hefur aldrei náð sömu hæðum og Noregur.“

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×