Fótbolti

Minningar frá árinu 2007 sækja að Gerrard

Það er ekki bara spenna fyrir leik Íslands í kvöld heldur er mikið undir hjá Englendingum. Þeir taka á móti Pólverjum og mega ekki misstíga sig.

Árið 2007 þurfti England aðeins jafntefli gegn Króatíu á heimavelli til að komast á EM 2008. England tapaði þeim leik 3-2 og menn hafa ekki gleymt því.

"Ég hef mikið hugsað um þann leik. Ég mun taka minninguna um þann leik með mér í gröfina," sagði Steven Gerrard, leikmaður enska landsliðsins.

"Þetta er ein af þessum minningum sem kemur aftur og aftur. Það er ekki hægt að gleyma þessu. Þau úrslit snérust ekki um taugar. Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir."

Gerrard segist ekki vera með neina sérstaka ræðu klára fyrir kvöldið.

"Það vita allir að ég er ekki fyrirliði sem talar mest. Ég mun ekki vera öskrandi brjálaður. Ég hef rætt við strákana um tilfinninguna sem verður fyrir leik. Ég hræði ekki ungu strákana en ég sé til þess að þeir viti hvað sé í húfi."

England þarf að vinna til að gulltryggja sætið á HM. Annars fer liðið í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×