Fótbolti

300 kílómetra akstur og tvö flug til að komast til Osló

Kolbeinn Tumi Daðason í Osló skrifar
Kópaskersbúinn Árni er hér til vinstri á myndinni.
Kópaskersbúinn Árni er hér til vinstri á myndinni. mynd/vilhelm
„Við ákváðum að skoða þetta alvarlega eftir Kýpurleikinn. Svo skelltum við okkur á flugmiða á sunnudaginn,“ segja félagarnir Árni Kristjánsson og Páll Ólafsson.

Árni og Páll búa í Sviss. Árni er verkfræðingur og býr í Zurich en Páll, sem er tölvunarfræðingur, hefur búið í fimm ár í landinu sem er þekkt fyrir hlutleysi. Páll býr í Lausanne og þurfti að keyra 300 kílómetra til Árna þaðan sem þeir tóku flug í morgun.

„Við vöknuðum klukkan fjögur og flugum til Berlínar. Þaðan flugum við svo hingað,“ segir þeir félagar.

Árni og Páll voru viðstaddir jafnteflið fræga í Sviss þar sem íslensku strákarnir sneru við blaðinu. Staðan var 4-1 á tímabili í síðari hálfleik og þá veltu Árni og Páll alvarlega fyrir sér að yfirgefa leikvanginn.

„Við vorum að spá í að skella okkur bara á pub-inn. Það var ekki seldur bjór á vellinum,“ segja þeir félagar sem sjá ekki eftir því að hafa staldrað við.

„Kolbeinn skoraði líka strax,“ segir Páll en mark Kolbeins kveikti í íslenska liðinu. Jóhann Berg skoraði svo tvö mörk og jafnaði metin eins og frægt er orðið.

Þeir félagar eru bjartsýnir fyrir kvöldið.

„Við gerum 1-1 jafntefli en Sviss vinnur Slóveníu 2-0 þ.a. við förum áfram,“ segir Árni. Páll hefur fulla trú á okkar mönnum. „Við vinnum 2-1.“

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu á Vísi. Gummi Ben mun lýsa leiknum beint á Bylgjunni og verður hægt að hlusta á lýsinguna inn í textalýsingarfrétt Vísis. Textalýsing, tölfræði og Gummi Ben. Allt á sama stað í kvöld á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×