Enski boltinn

Januzaj bjargaði United | Sjáðu mörkin hér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Belgíska ungstirnið Adnan Januzaj kom Manchester United til bjargar í heimsókn til Sunderland á Ljósvang í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Nemanja Vidic varð á stór mistök annan leikinn í röð snemma leiks. Slæm hreinsun hans féll fyrir fætur Craig Gardner sem skoraði með hörkuskoti neðst í markhornið. Nani fékk besta færi United í fyrri hálfleiknum en skot á lofti innan teigs fór rétt framhjá.

Í síðari hálfleik bættu gestirnir leik sinn án þess þó að sína meistaratakta. Þeim til happs var hinn átján ára Januzaj í stuði. Hann jafnaði metin með föstus skoti með hægri fæti á 55. mínútu eftir fyrirgjöf Patrice Evra.

Belginn leyfði sér varla að fagna markinu svo ákveðinn var hann að bæta við mörkum. Sex mínútum síðar gerði hann það. Sunderland skallaði fyrirgjöf út í teiginn þar sem Januzaj hamraði boltann með vinstri fæti neðst í fjærhornið.

Hvorugt liðanna fékk dauðafæri í kjölfarið og Englandsmeistararnir náðu í dýrmæt stig í smiðju Kevin Ball sem stýrir Sunderland tímabundið.

United hefur nú 10 stig líkt og Aston Villa og Newcastle um miðja deild. Sunderland er áfram á botninum með eitt stig.

Allt það helsta úr leiknum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×