Enski boltinn

West Ham skellti Tottenham 3-0

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
West Ham gerði sér lítið fyrir og vann Tottenham 3-0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Gylfi Sigurðsson var í byrjunarliði Tottenham.

Tottenham var mun meira með boltann í leiknum en átti í miklum vandræðum með að skapa sér færi. West Ham lék mjög góðan varnarleik og beitti hættulegum skyndisóknum.

Gylfa Sigurðssyni var skipt af leikvelli á 63. mínútu og þremur mínútum síðar kom fyrsta markið. Winston Reid skoraði það af stuttu færi eftir að samherji hans varði fyrri tilraun hans á línu.

Sex mínútum síðar bætti Ricardo Vaz Té öðru marki við og ellefu mínútum fyrir leikslok gerði Ravel Morrison út um leikinn þegar hann skoraði eftir að hafa rakið boltann frá eigin vallarhelmingi inn í teig þar sem hann vippaði yfir Lloris í markinu.

Tottenham fellur því niður í sjötta sæti deildarinnar með tapinu en West Ham United lyftir sér úr fallsæti og upp í 12. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×