Fótbolti

Miroslav Klose jafnaði markamet Gerd Müller

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose fagnar í kvöld.
Miroslav Klose fagnar í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Miroslav Klose skoraði fyrsta mark Þjóðverja í 3-0 sigri á Austurríki í kvöld í undankeppni HM en með þessu marki jafnaði hann 39 ára markamet Gerd Müller. Thomas Müller og Toni Kroos innsigluðu síðan öruggan sigur þýska liðsins en liðið er með fimm stiga forskot á toppi síns riðils.

Gerd Müller skoraði á sínum tíma 68 mörk í 62 landsleikjum fyrir Þjóðverja frá 1966 til 1974 en Klose var að skora sitt 68. landsliðsmark í 129 leikjum í kvöld.

„Það er mikill heiður fyrir mig að vera búinn að jafna met Gerd Müller en ég hef margoft sagt það að það er ekki hægt að bera okkur tvo saman því hann skoraði mörkin sín í svo miklu færri leikjum," sagði hinn hógværi Miroslav Klose.

Miroslav Klose fagnaði ekki með því að taka heljarstökk eins og hann er vanur. „Veistu ekki hvaða ár ég er fæddur. Ég hef ekki tekið heljarstökkið í langan tíma því ég met heilsuna mína meira en svo," sagði Klose léttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×