Fótbolti

Aron kom inn á 90. mínútu í tapi Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aron Jóhannsson og nýju félagar hans í bandaríska landsliðinu töpuðu 1-3 á móti Kosta Ríka í undankeppni HM í nótt en fyrir vikið náði Kosta Ríka efsta sætinu í riðlinum. Mexíkó tapaði einnig í nótt og það á heimavelli á móti Hondúras.

Kosta Ríka byrjaði leikinn mjög vel á móti Bandaríkjunum og var komið í 2-0 eftir aðeins tíu mínútur með mörkum frá Jhonny Acosta (3. mínúta) og Celso Borges (10. mínúta). Clint Dempsey minnkaði muninn með marki úr víti á 43. mínútu en Joel Campbell (í eigu Arsenal) innsiglaði sigurinn fimmtán mínútum fyrir leikslok.

Það vakti athygli að Jozy Altidore byrjaði á bekknum hjá Bandaríkjamönnum en hann hefur raðað inn mörkum í síðustu landsleikjum og skoraði einmitt þrennu í leiknum á undan á móti Bosníu. Altidore kom ekki inná fyrr en á 71. mínútu og á 90. mínútu fékk Aron Jóhannsson að koma inn fyrir Clint Dempsey.

Það voru óvænt úrslit þegar Mexíkó tapaði 1-2 á heimavelli á móti Hondúras en Hondúras komst með því upp fyrir Mexíkó og í 3. sæti riðilsins. Þrjú efstu sætin gefa beint sæti á HM en liðið í fjórða sæti fer í umspil.

Oribe Peralta kom Mexíkó í 1-0 strax á 5. mínútu leiksins en Hondúras snéri leiknum við með tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili eftir rúmlega klukkutíma leik. Mörkin skoruðu þeir Jerry Bengtson (63. mínúta) og Carlos Costly (66. mínúta).

Javier Hernández, leikmaður Manchester United, kom inná sem varamaður eftir að Mexíkó lenti undir í leiknum en náði ekki að bjarga stiginu fyrir sína menn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×