Innlent

Lofthræddir fá öryggislínu í lundanum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Sigurjón Ingvarsson er hér að koma upp keðjustigann. Ef einhver er lofthræddur er splæst í öryggislínu en Eyjapeyjar segjast ekki þurfa á slíku að halda.
Sigurjón Ingvarsson er hér að koma upp keðjustigann. Ef einhver er lofthræddur er splæst í öryggislínu en Eyjapeyjar segjast ekki þurfa á slíku að halda. Myndir/Óskar P. Friðriksson.
Fimm daga lundaveiðitímabili lauk í fyrradag í Vestmannaeyjum. Óskar P. Friðriksson ljósmyndari fékk að fljóta með fríðum flokki sem hélt til veiða í Hellisey síðasta daginn.

Eins og sjá má á myndunum er þetta ekki ferð fyrir lofthrædda en fara þarf upp um hundrað metra keðjustiga.

Þessi fugl hefur það aldeilis gott enda á hann auðvelt með að veiða og er ekki matvandur. Fuglinn er einn af þeim sem ekki sýtir komu makríls.mynd/óskar p. friðriksson
„Maður hugsar ekkert um þetta þegar maður er þarna uppi,“ segir Sigurjón Ingvarsson, sem veiddi flesta lundana í ferðinni. „Ef það eru einhverjir lofthræddir með þá skjótum við með þeim svona öryggislínu,“ bæti hann við.

Hann segir þá hafa séð mikið af lunda þegar loks létti til en þoka var mikil framan af. Hann sá þá líka hafa eitthvert æti í goggi. En sá sem nú lifir í hve mestum vellystingum út um allar eyjar er súlan enda súlan ekki matvandur fugl en hún hefur nú bætt makrílnum á matseðilinn.

Þegar létti til sást fagurgoggurinn víðast hvar og í ágætum holdum.Mynd / Óskar P. Friðriksson.
„Við veiddum aðeins þrjátíu og þrjá lunda,“ segir Sigurjón. „Menn hentu gamni að því að ég, viðvaningurinn sjálfur, veiddi eina þrjátíu meðan jarlinn sjálfur, Bragi Steingrímsson, varð að láta sér lynda þrjá. Þetta var hroðaleg útreið fyrir jarlinn,“ segir Sigurjón og hlær við.

Bragi Steingrímsson, alvanur lundaveiðimaður, lét viðvaninginn um mestu veiðina og tók aðeins þrjá sjálfur, sem var síðan tilefni til mikilla gamanmála.Mynd / Óskar P. Friðriksson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×