Enski boltinn

Moyes mættur á æfingasvæði United

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skotarnir David Moyes og Sir Alex Ferguson.
Skotarnir David Moyes og Sir Alex Ferguson. Getty Images

David Moyes mætti í dag á Carrington æfingasvæðið hjá Manchester United. Moyes mun taka formlega við sem stjóri United þann 1. júlí næstkomandi en búast má við að hann og Sir Alex Ferguson muni vinna náið saman næstu daga að því að slípa saman leikmannahópi liðsins fyrir næstu leiktíð.

Hæst á lista Moyes er líklega að ganga frá lausum endum í málefnum Wayne Rooney sem vill fara frá Englandsmeisturunum. Moyes og Rooney unnu saman hjá Everton en samband þeirra var ekki upp það besta undir lok tíma Rooney hjá Everton. Rooney sendi Moyes pillu í ævisögu sinni fyrir nokkrum árum sem varð til þess að Moyes kærði Rooney fyrir meinyrði. Rooney þurfti að biðjast afsökunar á ummælum sínum og borga Moyes ágæta summu undir borðið.

„Ég verð eflaust í tveimur störfum næstu vikuna eða svo,“ segir Moyes. „Ég verð á Finch Fram (æfingasvæði Everton) í nokkra daga í næstu viku til að tryggja að allt verði til klárt þegar ég yfirgef félagið.“

Moyes bætti við að hann væri sorgmæddur að fara frá Everton eftir 11 góð ár. „Ég keypti hvern einasta leikmann sem leikur með Everton í dag, fyrir utan Tony Hibbert og Leon Osman sem voru hér fyrir. Ég vona að allir þessir leikmenn séu ánægðir með að hafa gengið til liðs við Everton því þetta er frábær hópur leikmanna.“

Everton hafnaði í sjötta sæti ensku deildarinnar með 63 stig og varð tveimur stigum fyrir ofan erkifjendurna í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×