Enski boltinn

Gylfi: Við verðum að halda Bale

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi fagnar marki gegn Chelsea.
Gylfi fagnar marki gegn Chelsea. Nordic Photos / Getty Image

Gylfi Þór Sigurðsson segir að það sé Tottenham nauðsynlegt að halda Gareth Bale ætli félagið sér að komast aftur í Meistaradeild Evrópu.

Tottenham varð að sætta sig við fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili sem þýðir að liðið keppir í Evrópudeild UEFA á næsta tímabili.

Bale vann öll stærstu einstaklingsverðlaunin á tímabilinu og var allt í öllu í liði Tottenham. Hann hefur verið orðaður við mörg stærstu lið Evrópu, svo sem Manchester United og Real Madrid.

„Það er mikilvægt að halda góðum leikmönnum og hann er frábær leikmaður,“ sagði Gylfi í samtali við The Sun í dag.

„Það væri frábært að halda honum svo að liðið geti haldið áfram að bæta sig. En ef hann fer þá fær félagið háa upphæð fyrir hann. Ef það kemur til þess þá vona ég að liðið fái nokkra leikmenn í staðinn því það er ekki hægt að fylla skarð hans með einum leikmanni.“

„Hann hefur verið það góður þetta tímabilið og er okkur afar mikilvægur. Bale hefur verið lengi hjá Tottenham og er ánægður. Hann verður því vonandi áfram.“

Gylfi segir að tímabilið sitt hjá Tottenham hafi verið tvískipt. „Ég naut mín í raun ekki á fyrri hluta tímabilsins en fann mig betur á seinni hlutanum. Það hefði verið frábært að komast í Meistaradeildina en svona fór þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×