Fótbolti

Neymar til Barcelona eftir álfukeppnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Brasilíska dagblaðið O Globo heldur því fram í dag að Neymar muni hefja æfingar hjá Barcelona eftir að Álfukeppninni lýkur þar í landi í sumar.

Sóknarmaðurinn Neymar er talinn einn efnilegasti leikmaður heims og hefur lengi verið orðaður við Börsunga.

Hann er samningsbundinn félagi sínu, Santos, til 2014 og hefur hann ítrekað sagt að hann muni ekki fara til Evrópu fyrr en eftir HM í Brasilíu á næsta ári.

En samkvæmt O Globo verður gengið frá samningum í dag á fundi forráðamanna félaganna tveggja.

„Við vildum halda Neymar hjá Santos fram yfir HM 2014 en fótbolti eru viðskipti og þar ráða markaðsöflin,“ er haft eftir Odillio Rodrigues, varaforseta Santos.

Messi tjáði sig einmitt um Neymar í gær sem spænskum fjölmiðlum þykir gefa sterka vísbendingu um félagaskiptin.

„Ég veit ekki hvort hann komi en hann er leikmaður sem myndi bæta annarri vídd við liðið. Það væri frábært að fá hann til liðsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×