Enski boltinn

West Ham og Liverpool semja um kaupverð | Cole fer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Samkvæmt enskum fjölmiðlum hafa West Ham og Liverpool komist að samkomulagi um kaupverð á sóknarmanninum Andy Carroll.

Kaupverðið er sagt vera fimmtán milljónir punda, um 2,4 milljarðar króna, en Carroll hefur verið í láni hjá West Ham í vetur og er ekki í framtíðarplönum Brendan Rodgers, stjóra Liverpool.

Carroll sjálfur á þó enn eftir að semja um kaup og kjör en hann mun vera hikandi, þar sem hann vilji eiga sem bestan möguleika á því að komast í HM hóp Englands fyrir keppnina í Brasilíu á næsta ári.

Hann hefur einnig verið orðaður við sitt gamla félag, Newcastle, en óvíst er hvort menn þar á bæ hafi enn áhuga á kappanum.

Liverpool keypti Carroll frá Newcastle fyrir tveimur árum síðan fyrir 35 milljónir punda en það er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir breskan leikmann.

West Ham staðfesti svo í morgun að félagið muni ekki bjóða sóknarmanninum Carlton Cole nýjan samning. Hann er því á leið frá félaginu nú í sumar.

Cole er 29 ára gamall og hefur verið hjá West Ham í sjö ár. Hann skoraði 59 mörk í 237 leikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×