Enski boltinn

Auðveldara fyrir mig að yfirgefa Palace

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Liðsmenn Palace taka við bikarnum á Wembley í dag.
Liðsmenn Palace taka við bikarnum á Wembley í dag. Nordicphotos/Getty

„Ég er gjörsamlega búinn á því og veit ekkert hvað ég á að segja. Þetta var draumur minn og auðveldara fyrir mig að yfirgefa félagið vitandi að Palace sé komið í úrvalsdeildina," sagði Wilfried Zaha besti maður vallarins á Wembley í dag.

Zaha gerði varnarmönnum Watford lífið leitt allan leikinn og undir lok fyrri hálfleiks framlengingar sótti hann vítaspyrnuna. Kevin Phillips skoraði af öryggi úr spyrnunni og tryggði Palace sigurinn.

„Þetta er allt sem ég vildi. Ég ákvað fyrir leikinn að gefa gjörsamlega allt í leikinn. Ég hef spilað svo lengi fyrir Palace að það eina sem ég vildi var að hjálpa Palace. Það er yndislegt að það hafi tekist," sagði Zaha sem gekk í raðir Manchester United í vetur. Kaupverðið var 15 milljón pund eða sem nemur um þremur milljörðum íslenskra króna.

Zaha með bikarinn.Nordicphotos/Getty

Aðspurður hvort hann gæti vanist því að spila leiki sem þessa sagði Zaha að ekkert annað kæmi til greina sem leikmaður Manchester United.

Kevin Phillips spilaði í fjórða skipti í úrslitaleiknum í umspilinu. Hann hafði þrívegis beðið lægri hlut en nú var komið að sigrinum.

Phillips er einnig lánsmaður Palace en hann er samningsbundinn Blackpool. Samningur sóknarmannsins sem verður fertugur í júlí rennur út í lok mánaðarins. Hann hefur enga ákvörðun tekið varðandi framtíð sína.

„Ég ætla að hvíla mig núna. Tímabilið hefur verið langt. Ég sé til hvað verður eftir sumarið hvort sem það verður sem leikmaður eða þjálfari," sagði Phillips.


Tengdar fréttir

Phillips skaut Crystal Palace í ensku úrvalsdeildina

Gamla brýnið Kevin Phillips tryggði Crystal Palace sæti í ensku úrvalsdeidlinni í knattspyrnu þegar liðið lagði Watford 1-0 í framlengdum leik á Wembley. Eina markið kom úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks framlengingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×