Enski boltinn

Phillips skaut Crystal Palace í ensku úrvalsdeildina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kevin Phillips skorar sigurmark Crystal Palace úr vítaspyrnu.
Kevin Phillips skorar sigurmark Crystal Palace úr vítaspyrnu. Nordicphotos/Getty

Gamla brýnið Kevin Phillips tryggði Crystal Palace sæti í ensku úrvalsdeidlinni í knattspyrnu þegar liðið lagði Watford 1-0 í framlengdum leik á Wembley. Eina markið kom úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks framlengingar.

Spennustigið var hátt á Wembley enda mikið í húfi. Leikurinn er oft nefndur 120 milljóna punda leikurinn vegna þeirra gífurlegu fjárhæða sem félögin í ensku úrvalsdeildinni fá vegna sjónvarpsréttar.

Dramatík er árlegur viðburður í úrslitaleik umspilsins og á því varð engin undantekning þótt betri fótbolti og fleiri mörk hafi oftar en ekki verið á dagskránni.

Úr leiknum á Wembley í dag.Nordicphotos/Getty

Wilfried Zaha, leikmaður Manchester United sem er í láni hjá Crystal Palace, var sprækur í fyrri hálfleiknum en annars var lítið um færi í venjulegum leiktíma. Það var hins vegar Zaha sem sótti vítaspyrnuna dýrmætu undir lok fyrri hálfleiks framlengingar. Marco Cassetti, lánsmaður frá Udinese, braut á Zaha og ljóst að Ítalinn vill gleyma leiknum sem fyrst.

Phillips skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni og stuðningsmenn Lundúnarliðsins ærðust af fögnuði. Phillips verður fertugur í júlí og mikill styrkur fyrir Palace að geta sett svo reynslumikinn leikmann á vítapunktinn þegar svo mikið var í húfi.

Ian Holloway og Gianfranco Zola á hliðarlínunni í dag.Nordicphotos/Getty

Watford reyndi hvað það gat til að jafna metin og komst nálægt því í tvígang undir lok framlengingar. Í annað skiptið björguðu liðsmenn Palace á línu og í síðara skiptið fór boltinn hárfrínt fram hjá.

Það er því ljóst að Cardiff, Hull og Crystal Palace eru liðin þrjú sem bætast í hópinn í ensku úrvalsdeildina á næstu leiktíð. Reading, Wigan og QPR féllu hins vegar úr deildinni.

Ian Holloway endurnýjar því kynnin við ensku úrvalsdeildina. Hann stýrði Blackpool í deild hinna bestu leiktímabilið 2010-2011. Gianfranco Zola og hans menn í Watford þurfa að sætta sig við annað ár í næstefstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×