Enski boltinn

Mourinho fékk símtal frá Ferguson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson tók upp símann til að tilkynna Jose Mourinho persónulega að hann væri að hætta með Manchester United.

Þetta segir Mourinho í samtali við Sky Sports í dag. „Sir Alex sýndi mér mikinn heiður með því að hringja í mig og láta mig vita. Fréttirnar komu mér á óvart og ég var leiður,“ sagði Mourinho.

„En ég samgleðst honum á þessari stundu og hann má vera stoltur að ótrúlegum ferli sé nú lokið.“

„Ég held að það verði erfitt fyrir mig og aðra knattspyrnustjóra að koma til Old Trafford án þess að hitta þessa goðsagnakenndu persónu.“

Mourinho segir að það hafi verið góð ákvörðun að ráða David Moyes í starfið. „Mér líkar vel við hann persónulega og finnst hann góður knattspyrnustjóri. Hann hefur það sem þarf til að ná góðum árangri.“

„Ég óska Sir Alex alls hins besta í lífinu og óska þess að David muni eiga farsælan feril á Old Trafford.“

Enskir fjömliðlar héldu því fram í dag að Mourinho hafi staðið til boða að taka við Manchester United en að hann hafi hafnað því. Hann segir að það hafi aldrei komið til tals.

„Við erum góðir vinir og mínir vinir vita hvaða liði ég muni taka við þegar ég hætti hjá Real Madrid,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×