Enski boltinn

Rio með sigurmarkið í síðasta heimaleik Ferguson

Stefán Árni Pálsson skrifar
Síðasti heimaleikur Man. Utd undir stjórn Ferguson fer fram í dag.
Síðasti heimaleikur Man. Utd undir stjórn Ferguson fer fram í dag.
Leikmenn Manchester United náðu að kveðja Sir Alex Ferguson með sigri en liðið vann Swansea, 2-1, í dag en þetta var síðasti leikur stjórans á Old Trafford. Rio Ferdinand skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

Það var vel tekið á móti Sir Alex Ferguson en bæði lið höfðu stillt sér upp og stóðu heiðursvörð um stjórann þegar hann gekk inná Old Trafford í síðasta sinn sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Leikurinn hófst heldur rólega en Manchester United réði ferðinni í fyrri hálfleiknum. Fyrsta mark leiksins kom rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins þegar Javier Hernández skoraði fínt mark eftir skelfilega varnartilburði Swansea.

Michu jafnaði síðan metin í upphafi síðari hálfleiksins með laglegu marki þegar hann stýrði boltanum í netið með vinstri fæti eftir fasta fyrirgjöf inn í vítateig United.

Það stefndi allt í jafntefli en sigurmarkið kom rétt fyrir leikslok þegar Rio Ferdinand þrumaði boltanum í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Frábær endir fyrir Alex Ferguson á Old Trafford en leikurinn í dag var í 1499. skipti  sem hann stýrir liðinu. Þetta var fyrsta mark Ferdinand fyrir United í fimm ár og fór vel á því að það kom í leiknum í dag.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×